Færsluflokkur: Tónlist

TOTO – tónleikar í Laugardalshöll 10. júlí 2007

Picture 028Ég skellti mér á tónleika með hljómsveitinni TOTO í Laugardalshöllinni þriðjudaginn 10. júlí ásamt Gesti Rúnarssyni félaga mínum. Tónleikarnir voru í alla staði hin besta skemmtun og þó að hljómsveitarmeðlimir létu mannskapinn bíða eftir sér að góðra rokkara sið þá var keyrslan góð,  í um 1 ½ tíma, spilamennskan með eindæmum þétt og sveitin spilaði bæði gamalt og nýrra efni. Tónleikunum var síðan lokað með laginu „Africa“ sem líklega er þekktasta lag sveitarinnar enda tók salurinn vel við sér þegar þar var komið. Hljómsveitarmeðlimir týndust í lokin út af sviðinu, einn af öðrum þar til trommarinn, Simon Phillips, var einn eftir og sló Afríkutaktinn og síðan lagið og þar með tónleikana út, flottur endir.

Íslenskir áheyrendur létu annars ekki að sér hæða og voru í hlédrægari kanntinum að venju. Ef til vill má finna skýringuna í því að þegar að gítarleikarinn, Steve Lukather, spurði að því hversu margir tónlistarmenn væru á svæðinu gat ég ekki betur séð en að hálfur salurinn rétti upp hönd. Það er því hugsanlegt að þeir TOTO-liðar hafi upplifað stemmninguna fremur eins og þeir væru að spila fyrir hóp af gagnrýnendum en hefðbundna tónleikagesti. En þetta var hin besta skemmtun og engin eftirsjá í að hafa skellt sér á svæðið.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband