Ferðasaga

Ég skellti mér í bíltúr um miðjan júlí og var stefnan sett á Suðurlandsundirlendið. Ég byrjaði á að fara upp með Stóru-Laxá í Hreppum sem er hreint ótrúlega falleg þar sem hún fellur í sínum gljúfrum og fossum. Það sem er einkennandi við hana er hversu tær hún er, og gerir það laxveiði í henni þeim mun snúnari þar sem fiskurinn sér þig jafn vel og þú sérð hann. Eftir þann túr var haldið að fossinum Hjálp í Fossá í Þjórsárdal og þaðan að Þjóðveldisbænum. Að lokum ók ég sem leið liggur yfir brúna við stöðvarhús Búrfellsvirkjunar og síðan þar áfram, upp með Þjórsá, allt þar til komið er að Þjófafossum. Algengast er að komið sé að þeim austan megin frá en sjónarhornið vestan megin frá er mjög skemmtilegt og umhverfið fallegt. Gisti ég þarna um nóttina í faðmi Búrfells og lét nið Þjórsár syngja fyrir mig vögguvísu. Morguninn eftir hélt ég svo til baka, skoðaði sýninguna á Þjóðveldisbænum og kirkjuna sem reist var árið 2000. Síðasti áfangastaðurinn í túrnum voru síðan þeir Háifoss og Granni, tveir fossar sem falla nánast hlið við hlið í tilkomumikið gljúfur, nærri 200 metra fall. Eru þeir báðir mikilfenglegir en eins er sérstakt að þeir skuli vera svona hlið við hlið og það að kalla foss Granna hlýtur að teljast örnefnahúmor af betri tegundinni. Eftir þessa heimsókn var haldið heim á leið enda komið skýfall. Búrfell

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband