Færsluflokkur: Ferðalög

Ferðasaga

Ég skellti mér í bíltúr um miðjan júlí og var stefnan sett á Suðurlandsundirlendið. Ég byrjaði á að fara upp með Stóru-Laxá í Hreppum sem er hreint ótrúlega falleg þar sem hún fellur í sínum gljúfrum og fossum. Það sem er einkennandi við hana er hversu tær hún er, og gerir það laxveiði í henni þeim mun snúnari þar sem fiskurinn sér þig jafn vel og þú sérð hann. Eftir þann túr var haldið að fossinum Hjálp í Fossá í Þjórsárdal og þaðan að Þjóðveldisbænum. Að lokum ók ég sem leið liggur yfir brúna við stöðvarhús Búrfellsvirkjunar og síðan þar áfram, upp með Þjórsá, allt þar til komið er að Þjófafossum. Algengast er að komið sé að þeim austan megin frá en sjónarhornið vestan megin frá er mjög skemmtilegt og umhverfið fallegt. Gisti ég þarna um nóttina í faðmi Búrfells og lét nið Þjórsár syngja fyrir mig vögguvísu. Morguninn eftir hélt ég svo til baka, skoðaði sýninguna á Þjóðveldisbænum og kirkjuna sem reist var árið 2000. Síðasti áfangastaðurinn í túrnum voru síðan þeir Háifoss og Granni, tveir fossar sem falla nánast hlið við hlið í tilkomumikið gljúfur, nærri 200 metra fall. Eru þeir báðir mikilfenglegir en eins er sérstakt að þeir skuli vera svona hlið við hlið og það að kalla foss Granna hlýtur að teljast örnefnahúmor af betri tegundinni. Eftir þessa heimsókn var haldið heim á leið enda komið skýfall. Búrfell

Selasetur á Hvammstanga

Ég varð svo frægur um daginn að heimsækja Selasetrið á Hvammstanga og skoða þar safnsýninguna, sem og myndlistarsýninguna SPIK. Báðar sýningar voru mjög áhugaverðar og safnsýningin skemmtilega upp sett með mikið af sniðugum hugmyndum. Auk þess var virkilega gaman að sjá hvað búið er að taka gamla húsnæði Verslunar Sigurðar Pálmasonar vel í gegn, sem og umhverfið fyrir utan og er það allt orðið með öðrum brag en var þegar húsið var notað undir hitt og þetta og lítið um það hirt. Nú er snyrtimennskan í fyrirrúmi að innan sem utan og er það vel. Ég borgaði því glaður þær 500 krónur sem stúlkurnar í anddyrinu rukkuðu mig um fyrir heimsóknina við innganginn.

Í framhaldi af þessu sá ég svo blaðagrein um setrið í Viðskiptablaðinu þann 4. júlí s.l. þar sem haft er eftir aðstandendum setursins að gestafjöldi á árinu væri á bilinu 4.000 - 5.000 manns. Opnunartíminn væri frá 09:00 - 18:00, júní til ágúst og 10:00 - 16:00 í september og til 15. október. Fór ég þá að velta því fyrir mér hvernig reksturinn væri á svona safni væri. Ef við göngum út frá miðgildinu á þeim tölum sem að safnið áætlar um aðsókn og segjum að 4.500 manns mæti og skoði safnið á árinu og að þeir greiði allir fullt gjald, 500 krónur þá eru tekjur safnsins af aðgangseyri 2.250.000,-. Til að einfalda málið segjum við að eitt stöðugildi sé við safnið og að sá starfsmaður hafi 150.000 í laun á mánuði sem getur varla verið ofrausn. Með launatengdum gjöldum þá reiknast mér til að þessi aðgangseyrir rétt hrökkvi til til að greiða þessi laun. Eftir er síðan allur annar kostnaður við húsnæði, auglýsingar og kynningar og annað sem til. Það hlýtur því að vera þungur róður þegar ná þarf til lands með reksturinn og örugglega ekki einsdæmi þegar kemur að safnarekstri á landsbyggðinni. Á heimasíðu Selasetursins kemur fram að setrið er fjármagnað með hlutafé og styrkjum og þó að hluthafarnir 89 hafi sjálfsagt aldrei vænst mikils arðs af fjárfestingunni heldur lagt inn fjármagn af góðum hug og vegna áhuga á málefninu og ferðamennsku, þá má engu að síður velta því fyrir sér hvort að hinn almenni ferðamaður væri ekki til í að greiða aðeins hærri aðgangseyri, a.m.k. hefði undirrituðum ekki þótt það nein goðgá að greiða 800-1.000 krónur fyrir aðganginn eða andvirði eins hamborgara, einkum ef tekið er tillit til gæða safnsins og að þarna var um sannkallað 2-fyrir-1 tilboð að ræða, safn og listsýning í einum pakka. Ég hvet því aðstandendur safnsins til að huga að þessari hlið um leið og ég óska þeim til hamingju með sannkallaða perlu í safnaflórunni.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband